Thursday, April 8, 2010

Færsla samkvæmt pöntun



Jæja, ég er búinn að vera sjúklega lélegur að blogga. Ástæður = Herranótt, stúdentspróf og almenn leti. Ég hendi kannski inn bloggi um Hot Tub Time Machine, Kóngaveg eða THE ENGLISH PATIENT... Ókei. En núna ætla ég að blogga um námskeiðið.

  • Hvað tókst vel og hvað mætti betur fara?
Mér fannst overall námskeiðið bara heppnast frekar vel. Það var gaman að fá yfirsýn yfir kvikmyndagerðarhugtök, kvikmyndagerðarmenn og nokkrar misgóðar kvikmyndir. Það var líka ótrúlega gaman að fá tækifæri til þess að gera mynd með góðar græjur - það var góð hvatning til að drífa í að gera eina mynd.

Það sem mér fannst kannski bætanlegast er i) Aginn í tímum. Auðvitað er þetta bara valfag og við erum öll í 6. bekk en athyglin mætti alveg vera meiri og þó svo að við höfum valið að vera í þessum tímum þá ætti alveg að vera agi í tímunum. Svo var líka skrítið hvað við fórum seint í kvikmyndasöguna. Mér fyndist að hún ætti að vera undirstaðan - einhvernveginn tvinnuð inn í námskeiðið og talað um tæknileg atriði inná milli. Ég veit það ekki.
  • Hvaða hluti námskeiðsins var skemmtilegastur?
Klárlega sumir bíó-tímarnir, þegar við sáum sjúklega góðar myndir. Eins og Happy End sem kom sjúklega á óvart. Það var líka gaman að fara í hópferðir á íslenskar myndir og fá síðan frí í morguntíma. Like á það.
  • Hvaða hluta lærðuð þið mest af eða nýttist ykkur best?
Að læra tæknilegu atriðin í kvikmyndagerð. Að stilla myndavélinni upp og að klippa rétt. Myndbyggingarpælingar og handritunarpælingarnar voru líka góðar. Ég mun líka klárlega nýta mér Celtx í framtíðinni, hvort sem það er í kvikmyndaskrif eða leikritun.

Oft var líka ótrúlega skemmtilegt að hitta leikstjórana. Þeir voru reyndar mjög mismunandi, en Ragnar Bragason stendur klárlega uppúr þar!
  • Hvaða hluta þarf að breyta eða henda alveg út?
Kannski pressa meira á skilafrest myndanna. Og ég veit ekki hvort þú gerir það nú þegar - en það þarf alveg klárlega að sjá til þess að allir nemendur séu búnir að sjá mynd sem við eigum að fara á utan tíma.. og peppa fólk til að mæta í hópferðirnar. Mér finnst engu þurfa að henda út, kannski mætti minnka bloggið í sniðum.
  • Hvers söknuðuð þið - hverju þarf að bæta við?
Ég veit ekki. Það er kannski ekki hægt að kenna þetta betur þegar markmiðið er heildarsýn á kvikmyndagerð og kvikmyndasögu... Dálítið stórt verkefni fyrir fáa tíma. Ef eitthvað ætti að bætast við, þá þyrfti eitthvað að detta út. Kannski væri hægt að fókusera meira á tæknilegu hliðina og sleppa söguhlutanum... Það hefði mér alveg þótt ágætt (saga er ekki í miklu uppáhaldi) en annars er námskeiðið bara ágætis grunnur í öllum þáttum kvikmyndafræði.

-----

Að lokum, já, það mætti alveg bæta við tónlistarmyndbandi/auglýsingu... Þessvegna væri hægt að leyfa hópunum að taka upp á meðan hinir eru í bíótíma? Er það kannski pæling? Hver hópur yrði settur á einn miðvikudag (þá gætirðu líka haft hópa sem koma úr báðum bekkjunum) og fengi 2 tíma til að taka upp auglýsinguna/tónlistarmyndbandið (eða gætu haldið áfram eftir skóla, en með þessu ertu allavegana búinn að setja hópinn af stað). Þá myndirðu sjá til þess að verkefnið yrði gert og síðan myndi hópurinn klippa heima. Pæling?

Svo er ég líka pínu efins með blogg-pælinguna... Mér finnst hún sniðug og hún hljómar vel, en fólki virðist bara vera ALVEG sama um bloggið. Það eru örfáir sem blogga yfir höfuð, og ég veit hreinlega ekki hvað væri hægt að gera í staðinn... Kannski minnka kröfurnar, svo þær séu yfirstíganlegar? Hvetja til umræðna á Facebook frekar en að láta alla fá sér blogg? (og gefa fólki svo bara stig útfrá kommentum) ég veit ekki!

En ég er virkilega fylginn byltingarkenndu pælingunni minni: Að einn hópur í einu fái kameruna og fái að taka upp á meðan allir hinir eru í bíótíma, þá myndi hver nemandi sjá einni mynd færri og í staðinn myndirðu auka virkni í kvikmyndagerðinni.
-Gummi