Saturday, November 21, 2009

Year One

Ég horfði á tvær bíómyndir um daginn, ég ætla þó að láta kyrrt liggja að blogga um aðra þeirra. Sú hét "Epic Movie" og var ein lélegasta spoof-mynd sem ég hef séð á ævinni. Hún blandaði saman myndum eins og Narnia, Harry Potter, Willy Wonka and the Chocolate Factory, Da Vinci Code og ólíklegustu hlutum eins og MTV Cribs og Rapp-tónlistarmyndböndum... Djöfull var hún hræðileg.

Hin myndin, Year One, var þó öllu skárri.



Myndin fjallar um tvo glataða frumbyggja. Zed er misheppnaður veiðimaður og Oh er aumkunarverður safnari og saman búa þeir í litlum ættbálki í skógi. Nánari staðsetning þorpsins þeirra, og raunar allrar atburðarrásarinnar, kemur aldrei fram en myndin gerist á ótrúlega mörgum og mismundandi stöðum. Year One er í raun bara ein stór staðreyndavilla og framleiðendur myndarinnar eru sennilega ekkert að reyna að gera sannsögulega mynd.. sem er líka bara fínt. Og kómískt.



En semsagt, Zed er útskúfaður úr þorpinu eftir að hann borðar forboðinn ávöxt af forboðna trénu og Oh ákveður að fylgja honum í mikla ævintýraför. Á för sinni má eiginlega segja að þeir fari yfir nokkur skeið í mannkynssögunni. Fyrsta fólkið sem þeir hitta eru einhverskonar bændur, þeir fylgja einum bóndanum í einhvern bæ og þar eru þeir seldir í þrældóm. Sagan endar síðan einhversstaðar á Rómar-tímabilinu.. Eins og ég segi, ein stór staðreyndavilla.


Gamli forboðni!

Ég er hættur að nenna að tala um tæknilega framkvæmd Hollívúdd kvikmynda. Þær eru allar eins gerðar og allar bara mjög vel gerðar. Það er ekkert sem kemur á óvart og ekkert sem er hræðilega lélegt.. Ég man ekki eftir neinu frumlegu skoti í myndinni eða skemmtilegri útfærslu, myndin var, eins og allar myndir af þessari gerð, bara mjög venjulega unnin tæknilega.

Helstu leikarar eru ágætir, Jack Black og Michael Sera eru frábærir leikarar en ekki alveg uppá sitt besta í þessari mynd. Að mínu mati. Maður er eiginlega (því miður) kominn með pínu ógeð á Jack Black og töktunum hans. Hann er einn af þessum grínleikurum sem eru alltaf eins og skemmtunin sem felst í nýjum myndum með honum eru skrítnu karakterarnir sem hann leikur, en er samt alltaf eins. Gott dæmi um svona leikara er Jim Carrey, sem leikur lögfræðing, The Mask, The Grinch og Ace Ventura... alveg eins! Og það er alltaf jafn fyndið.. en þreytist jafn fljótt og það varð gaman.

Brandararnir í myndinni voru margir hverjir ansi góðir, en allt of margir bara náðu ekki alveg til mín. Handritið var að sjálfsögðu afskaplega heimskulegt, og myndin í heild var bara heimskuleg. Eiginlega of heimskuleg. Og það er aldrei jákvætt. Ekki einusinni fyrir grínmynd með Jack Black.

Á heildina litið átti Year One sína spretti, en olli samt svolitlum vonbrigðum. Ég, verandi Jack Black aðdáandi (í dvínun...) bjóst við meiru.

Hér má sjá atriði úr myndinni:

Sunday, November 15, 2009

Klisjukenndasta skítadrasl kvikmyndasögunnar



2012(2009)

Við félagarnir skelltum okkur á stórmyndina 2012 nú í kvöld. Ætlunin var að fara kl. 22 en vegna gífurlegrar aðsóknar var uppselt á þá sýninguna. Við dóum ekki ráðalausir heldur ákváðum að fara á myndina kl. 23.15 í staðinn. Athugið að sú ákvörðun var tekin ÁÐUR en við áttuðum okkur á því að myndin er rúmlega tveir og hálfur klukkutími.

Myndin fjallar um heimsendi. Jibbíjei, enn ein stórslysamyndin.. Eins og titilinn gefur til kynna gerist hún árið 2012, en þá á heimurinn víst að enda samkvæmt tímatali Maya... Útskýringin á heimsendinum er, að sjálfsögðu, ekki mjög vísindaleg. Það er eitthvað talað um það að geislar frá sólinni séu orðnir of heitir vegna aukningu sólgosa og að þeir séu farnir að virka eins og örbylgjur. Jörðin okkar er semsagt í risastórum örbylgjuofni og flekarnir munu brátt byrja að færast til undir bráðnuðu undirlagi sínu. Nú er ég ekki mjög góður í jarðfræði, en eitthvað segir mér að þessi útskýring á heimsendi sé ein sú mesta þvæla sem skrifuð hefur verið í handrit... En ég ætla alfarið að leyfa jarðfræðingunum að hrekja það.



Svo ég tali nú aðeins meira um söguþráðinn, þá fylgjum við líka sögu fráskilins tveggja barna föðurs sem fer með börnin sín, litla krúttlega stúlkukind og ótrúlega mikinn rebel-strák (uþb. 10 ára) sem þolir ekki pabba sinn og er alltaf í geimbojinum sínum, í útilegu í Yellowstone-þjóðgarðinn rétt í þann mund sem hann breytist í risastórt eldfjall. Fjöslkyldufaðirinn dyggi kemst að því að verið sé að byggja svokölluð skip ("the government is building these ships") sem eiga að bjarga öllu. Ferðalagi fjölskyldunnar er síðan fylgt í bland við klisjukenndar senur af Bandaríkjaforseta og hans sérfræðingum.

Réttur titill myndarinnar væri í raun "The Cliché Movie" einfaldlega vegna þess að hún er klisjukenndasta og amerískasta mynd sem ég hef séð á ævinni. Það er í raun engin virkilega þekkt klisja sem kom ekki fyrir í myndinni og vil ég hrósa leikstjóra myndarinnar, Roland Emmerich, fyrir að hafa náð að troða þeim öllum inn í myndina. Sem dæmi um klisjur má nefna:

- Einhleypa gaurinn sem var lélegur pabbi en vinnur aftur traust barna sinna og ást fyrrverandi eiginkonu sinnar með því að vera geðveik hetja.
- Forseta Bandaríkjanna sem hafnar því að fara með skipi til að halda lífi, en ákveður að vera eftir í Hvíta Húsinu og deyr þar.
- Unga jarðfræðinginn sem hefur á réttu að standa allan tímann.
- Hin ótal bíla- og flugvélaatriði þar sem allir virðast verða fyrir hrauni/hrynjandi húsi NEMA aðalpersónurnar okkar.
- Vonda rússneska kallinn sem er alveg sama um restina af fólkinu og vill bara halda lífi, sem deyr síðan að sjálfsögðu í lokin.

...og svona gæti ég haldið áfram í alla nótt.. En ég þarf að mæta í kvikmyndafræði kl. 08:10 svo ég ætla að drífa þetta blogg af.



Myndin var auðvitað frábærlega gerð, tæknilega. Öll sjónræn og hljóðræn atriði voru "tipp-topp", fyrir utan nokkra grafík-lega hnökra, sem eru að sjálfsöðgu óhjákvæmilegir í mynd sem er svo uppfull af tölvugrafík. Sérstaklega fannst okkur skemmtilegt hvað gæðin á myndinni voru góð, þetta var augljóslega ekki filma.. Kannski digital? Þetta var í sal 1 í Smárabíó.. Spalli, þú kannski veist hvernig tækni er notuð þar?

Handrit myndarinnar þarf ég ekkert að ræða frekar.. Það var ömurlegt. Ég gat ekki hamið mig um að deyja úr kjánahrolli á ákveðnum stöðum í myndinni ("I love you dad" kemur strax upp í hugann) og það má í raun segja að handritshöfundar myndarinnar hafi ekki tekið mikla sénsa þegar kom að því að skrifa...

Eina jákvæða atriðið um myndina sem mér dettur í hug þessa stundina (fyrir utan afþreyinguna og spennuatriðin) er fjöldi svertingja í stórum hlutverkum. En forseti Bandaríkjanna og hinn ungi jarðfræðingur voru báðir svartir. Það þótti mér stórmerkilegt og stórskemmtilegt. Myndin endaði síðan á krúttlegu ástarsambandi á milli hins síðarnefnda og dóttur forsetans, smá svona svertingja-ást... Maður hatar það ekki ;)

En annars, ef þú vilt fá afþreyingu og spennandi spennuatriði, innanum klisjukenndustu atriði veraldarsögunnar, skelltu þér þá á 2012! Endilega taktu vini þína með þér og passaðu að það séu engir í salnum sem taka myndinni alvarlega.. Hlátrasköllin þín munu alveg eyðileggja fyrir þeim upplifunina :)

Monday, November 2, 2009

Að taka upp auglýsingu

Herranótt stóð í fjáröflun í gær og í fyrradag (sunnudag og mánudag) þar sem Herranæturstjórn fékk það verkefni að safna saman 150-200 manns til þess að leika í auglýsingu stórfyrirtækis, sem vill alveg örugglega ekki láta nafns síns getið á alnetinu. Það fór svo þannig að 100 manns mættu eiturhress í Laugardalshöllina á sunnudagsmorguninn, grunlaus um hinn eilífa dag sem var þeim fyrir höndum.

Ég held að hverjum einast einstaklingi í þessum hundrað manna hópi hafi smám saman orðið fullljóst hvað leikur í kvikmyndum/leikritum snýst aðallega um: Að bíða. Kameru- og ljósamennirnir, leikstjórinn og útlitskonurnar vönduðu sig alveg hreint skuggalega mikið við uppsetningu á tökum og bitnaði það oftar en ekki á statistunum sem eyddu heilu klukkustundunum í kaffistofunni, bíðandi í örvæntingu.

Í fyrstu senu dagsins átti að líta út fyrir að Laugardalshöllin væri full af fólki frá gólfi upp í loft. Einhvernveginn svona:


Til þess að taka það upp hefði þurft í kring um 5-10.000 manns, en við vorum bara 100. Hvað var þá til ráða? Jú. Vegna þess að fólkið hjá auglýsingastofunni var svo sniðugt kunnu þau á einhverskonar layer-tækni (einhverskonar advanced útgáfu af split-screen) þannig að þau stilltu upp tveimur camerum sem voru kyrrar á sama stað allan tímann á meðan 100 manna hópurinn skiptist á að færa sig á milli staða í stúkunni og tryllast úr gleði. Það verður svo hausverkur post-production sérfræðinganna að púsla öllum þessum tökum (kannski 30-40 tökum) saman.

Að þessum hluta loknum (eftir sirkabát 4-5 klst. vinnu) fór statistahópurinn í pásu sem entist í uþb. tvær klukkustundir. Það kominn ansi mikill pirringur í hópinn af allri biðinni þegar hann var loksins kallaður aftur inn í íþróttasal, og þá skýrðist það afhverju pásan hafði verið svona löng. Inni í íþróttasalnum hafði RISAstórum Green-screen verið komið fyrir á miðjum íþróttavellinum og ljósamennirnir voru í óðaönn að fulllýsa teppið.



Þegar lýsingarvinnunni var lokið hófst hópurinn handa við að taka upp hópsenur á green-screeninu og lauk þeirri vinnu uppúr kl. 20:00. Síðustu statistunum var síðan leyft að fara kl. 21:00, eftir ellefu klukkustunda vinnudag.

Þrátt fyrir mikla vinnu og leiðindabið virtust flestir statistarnir vera sáttir við sinn hlut. Það var í raun magnað að sjá hversu margir nenntu að hanga í Laugardalshöllinni í heilan dag. Upplifunin að verða vitni að og fá að taka þátt í alvöru kvikmyndapródúksjón var eflaust helsti drifkraftur flestra þennan langa dag. Enda alltaf gaman að gægjast á bakvið tjöldin í atvinnu kvikmyndagerð og fá að sjá hversu mikil vinna það er að framleiða auglýsingu sem kemur síðan í nokkrar sekúndur í sjónvarpinu! :)