Ég var að henda inn myndum á topp 10 listann minn. Ég er örugglega að gleyma fullt af myndum, þessar voru bara þær sem komu fyrst upp í hugann. Listinn er samt nokkurnveginn í réttri röð...
1. Börn (2006)
Ég fór einn á þessa mynd í bíó og upplifði bestu bíóferð lífs míns. Myndin var sýnd í sal 5 í Háskólabíó, sem er grafinn ofan í einhverri kjallaraholu. Það voru einhverjar nokkrar hræður með mér í salnum, en mér leið fullkomlega eins og ég væri einn í heiminum. Myndin snart mig á einhvern ólýsanlegan hátt. Ég lifði mig barnslega mikið inn í hana og var ótrúelga nálægt því að bresta í grát þegar ég var kominn heim. Leikræn tilþrif og flottur söguþráður stóðu uppúr og öll tæknileg vinna var til fyrirmyndar. Börn er tvímælalaust mynd sem ég mun horfa á aftur og aftur í gegn um lífið og það þarf eitthvað mikið til að slá hana út af toppi listans míns.
2. Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004)
Jim Carrey var alltaf uppáhaldsleikarinn minn þegar ég var lítill. Ég elskaði hann í ofleiknu hlutverkunum sínum í The Mask, Liar Liar omfl. Ég þroskaðist hinsvegar upp úr honum, einhvernveginn og það var ekki fyrr en ég sá hann í Eternal Sunshine... að hann stimplaði sig virkilega inn sem einn af mínum uppáhalds. Ég fílaði myndina í tætlur! Ég er algjör sökker fyrir flóknum söguþráðum sem útskýrast á lokamínútum myndarinnar og Eternal Sunshine of the Spotless Mind er ein af þeim. Handritið og öll hugmyndin í kring um myndina finnst mér stórkostleg, og meistaraleikarar skemma ekki fyrir..
3. A Clockwork Orange (1971)
Klassík. Hvað get ég sagt? Ótrúlega heillandi saga, tragíkómísk og frekar alvarleg á köflum. Stanley Kubrick sýnir sko hvað í sér býr í þessari mynd! Myndin er stútfull af frægum tilvitnunum. Hún er í raun bara epískt meistaraverk, klassík sem allir hafa séð og allir elska.
4. Trainspotting (1996)
Fáránlega áhrifamikil og vel leikin mynd. Ef ég ætti að velja eiturlyfjaforvarnarmynd fyrir unglinga, yrði Trainspotting sennilega fyrir valinu. Hún gefur ótrúelga raunverulega innsýn í líf dópistans og lætur mann finna til með honum. Vel gerð, flott soundtrack og fyrst og fremst: Fáránlega vel leikin!
5. Paris, je t'aime (2006)
Paris, je t'aime er í raun samansafn af stuttum ástarsögum í stuttmyndaformi sem gerast allar í nánasta umhverfi Parísar. Hver stuttmynd er einstök á sinn hátt og það er einmitt það sem gerir myndina sérstaka. Maður veit aldrei við hverju maður á að búast næst. Án efa ótrúlega skemmtileg feel-good-mynd, sem kennir manni kannski eitt og eitt orð í frönsku! :)
6. Lucky Number Slevin (2006)
Skemmtileg, vel gerð og vel gerð klisja frá Hollívúdd. Það sem greip mig við myndina var MEGA twistið sem kom í lokin! Ó guð, ég er sökker fyrir twistum... Myndin var svosem ágætis afþreying, en hún kemst á þennan lista vegna þess að hún inniheldur rúmlega mjög góða leikara og yndislega skemmtilegat plot!
7. Slumdog Millionaire (2008)
Myndin olli algjöru æði þegar hún kom í bíó á Íslandi fyrir nokkrum mánuðum. Það fóru bókstaflega ALLIR að sjá Viltu vinna milljarð? Og hún átti það sko fyllilega skilið. Frábærlega uppbyggð saga og skemmtileg skot af fátækrahverfi í Indlandi gera myndina einstaka. Ókei, kannski var bókin betri, en mér er bara alveg sama um það! Mér fannst myndin fín og mig langar bara ekkert að lesa bókina!
8. 12 Angry Men (1957)
Í algjörri óvissu leigðum við félagarnir þessa mynd saman eitt kvöldið. Hún var sögð góð og við ákváðum að slá til. "Detta í smá flipp" yfir svart-hvítri og eldgamalli mynd sem gerist öll í sama herberginu. Og váá hvað myndin kom mér á óvart! Þrátt fyrir ótrúlega takmarkaða atburðarás og litla fjölbreytni í aðstæðum, var myndin mesta skemmtun! Leikararnir náðu alveg að halda sögunni uppi til síðustu mínútu og það verður að teljast nokkuð gott.
9. Little Miss Sunshine (2006)
Feel-good, feel-good, feel-good. Little Miss Sunshine er feel-good mynd í hæsta gæðaflokki. Hún er svolítið krúttleg og mjög kómísk (þrátt fyrir heldur tragískan söguþráð og glataðar persónur.) Stórskemmtileg og vel leikin líða-vel-mynd sem kemur öllum í gott skap!
10. Sin City (2005)
Ég elska stílinn á þessari mynd! Einhverskonar dimmur teiknimyndasögustíll... Eiginlega alveg svarthvít, nema einstaka litur, sem gerir litina ótrúlega áhrifamikla! Sögurnar í myndinni eru líka frekar epískar. Þær fjalla eiginlega allar um manndráp og hórur, sem er alltaf hressandi í skemmtilegum afþreyingarmyndum eins og Sin City. Sin City er einhverskonar bil á milli Hollívúdd-afþreyingarmyndar og hreins og klárs listaverks. Og það er sko góð blanda.
Thursday, August 27, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Skemmtilegur listi. Það eru nokkrar þarna sem ættu alveg séns inn á listann hjá mér (Sin City, 12 Angry Men og Clockwork Orange).
ReplyDeleteEitt af því sem ég elska við Sin City er að þar er tölvugrafík og blue-screen notað til stílfæringar. Ég vildi óska að það væru fleiri sem gerðu það. Tölvugrafík er oftar en ekki gerð með það í huga að hún eigi að vera sem raunverulegust, en let's face it, oftast er alveg augljóst hvað er tölvugrafík og stundum er hún alveg hundljót (stóru bardagasenurnar í LOTR koma upp í hugann).
En með því að nota tölvugrafík til stílfæringar, til þess að gera myndina meira abstrakt, í raun til þess að segja "Þetta er ekki raunverulegt", finnst mér Robert Rodriguez finna nýjan flöt á notkun tölvugrafíkar (beygir maður það svona?). Raunsæi er leiðinlegt, stílfæring rúlar.
5 stig. Hefðir mátt skella inn myndum.