Friday, August 28, 2009

Inglourious Basterds

ATH! Varist SPOILERA!

Ég er
ótrúlega nálægt því að breyta topp 10 listanum mínum akkúrat núna. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég var að koma heim af Inglourious Basterds og hún var bara algjör "fokking" snilld! Ég fór í bíóið með miklar væntingar, enda hafði ég einungis heyrt góða hluti um myndina, og hún stóðst þær fullkomlega.

Leikstjóra og handritshöfund myndarinnar, Quentin Tarantino, ættu allir að þekkja. Hann hefur getið sér gott orð með myndum eins og Pulp Fiction, Reservoir Dogs og Kill Bill og Inglourious Basterds mun hiklaust fleyta honum áfram í ólgusjó kvikmyndaiðnaðarins .Kvikmyndunarstíll Tarantinos einkennist af ofbeldisfullum eða grafískum senum, löngum skotum, "mexíkóskum einvígjum" og öfgakenndum ofur-nærmyndum. Hann skiptir myndunum sínum oft í kafla (e. chapters) og það er einmitt raunin í Inglourious Basterds.

Hvert og eitt skot í myndinni er sannkallað listaverk. Ég stóð mig ótrúlega oft að því að dást að vel völdum sjónarhornum og skemmtilega skipulögðum fókus-breytingum. Sjónarhornin í myndinni eru eins mismunandi og þau eru mörg og því frumlegri sem þau eru, því skemmtilegri gera þau senuna. Annað sem mér fannst mjög skemmtilegt var tilhneiging Tarantinos til þess að gefa sér tíma í hverja senu. Myndin innihélt margar heillangar senur með hægum díalógum, sem gengu fullkomlega upp og ástæðan fyrir því var sennilega færni leikaranna, í bland við kænsku leikstjórans til þess að koma alltaf með ný og ný sjónarhorn sem héldu manni ánægðum. Tarantino er ekki hræddur við að sýna miklar nærmyndir af þegjandi andlitum sem voru oftar en ekki stórskemmtileg skot.

Tónlistar- og hljóðvinnsla myndarinnar var líka til fyrirmyndar. Það er oft talað um að tónlist í kvikmynd sé góð ef maður verður ekki mikið var við hana. Eftir að hafa séð þessa mynd er ég því algjörlega ósammála. Ég tók ótrúlega mikið eftir tónlistinni í myndinni, og það var sko alls ekki á slæman hátt. Tónlistin bætti oft senurnar til muna og jók svo sannarlega á spennuna þegar það átti við. Í áhrifamestu atriðunum var tónlistin stillt í botn og það var ekkert nema geðveikt!

Leikararnir í myndinni voru ekki af verri endanum. Þar gat að líta stjörnur á borð við Brad Pitt, Mike Myers og Samuel L. Jackson (ókei, hann sást samt aldrei, hann var bara voice over...) en stórstjarna myndarinnar, maðurinn sem gjörsamlega átti myndina var enginn annar en austurríski leikarinn Christoph Waltz, sem hlaut einmitt verðlaun sem besti leikarinn á Cannes-kvikmyndahátíðinni nú í ár. Það kom í hans hlut að túlka hinn lævísa smjaður-herforingja Hans Landa. Karakterinn virðist vera ljúfur og hláturmildur, en það er stutt í illa nasistann sem leynist undir yfirborði smjaðrarans. Hans Landa þrífst einskis og myndi glaður fórna sínu eigin föðurlandi, ef hann fengi eitthvað út úr því sjálfur. túlkar WaltzHans Landa á ótrúelga skemmtilegan hátt, hann hefur fullkomna stjórn á líkama sínum og er á köflum svolítið kjánalegur. Eftirminnilegasta grínið í myndinni kom undir lokin þegar Hans Landa varð ofur-spenntur og gargaði "It's a Bingo!!" Þá salurinn úr hlátri yfir þessari ótrúlega asnalegu setningu, sem kom frá þessum virðulega og illgjarna nasista.

Leikararnir í myndinni stóðu sig allir með prýði. Þeir voru vel castaðir, nema kannski Mike Myers, sem lék stórundarlegt og lítið hlutverk sem hentaði honum ekkert allt of vel. Ég hefði viljað sjá Mike MyersMike Myers-legra hlutverk... þar fyrir utan var allt óaðfinnanlegt. Brad Pitt lék Bandaríkjamanninn Aldo Raine mjög vel og var algjör töffari með suðurríkjahreiminn sinn. Mélanie Laurent túlkaði togstreitu gyðingakonu í nasistaheimi mjög sannfærandi og fékk mig svo sannarlega til þess að finna til með sér. Dauði hennar var óneitanlega eitt stærsta mómentið í myndinni.

Mér hefur alltaf fundist það einstaklega kjánalegt að leika sögufrægar persónur í kvikmyndum, persónur sem allir vita hvernig litu/líta út. Maður kaupir karakterana ekki jafn auðveldlega, vegna þess að maður veit nákvæmlega hvernig karakterinn á að líta út. Adolf Hitler í Inglourious Basterds var engin undantekning þar á. Mér fannst leikarinn alltaf frekar kjánalegur og allt of "silly" til þess að hægt væri að taka honum alvarlega. Til samanburðar má nefna túlkun Davids Bamber á Hitler í kvikmyndinni Valkyrie. Þar er Hitler túlkaður sem miklu drungalegri karakter og er í alla staði meira ógnvekjandi og geðveikur. Ég hefði viljað byggja upp meiri hatur á einræðisherranum áður en hann var svo plaffaður í bíóinu og andlitið á honum sundurtætt.

Inglourious Basterds er ótrúlega skemmtileg og fáránlega vel gerð afþreyingar-mynd sem skartar frábærum leikurum í öllum hlutverkum og heldur manni vakandi allan tímann. Myndin er kómísk á köflum, sjúklega spennandi og á það til að ganga fram af viðkvæmasta fólki. Hún er allt sem þarf í góða hasar-stráka-spennu-mynd, og ég fílaða!

1 comment:

  1. Sammála. Snilldarmynd.
    Varðandi Hitler, þá er ég viss um að Tarantino geri hann svona viljandi. Þetta er ekki hinn sögulegi Hitler, heldur Hitler þessarar myndar. Þetta er jafnvel eins konar teiknimynda-Hitler, ofurýktur og sorglegt eintak. Ég fílaði hann.
    Hjartanlega sammála með Waltz, hann var alveg frábær.

    6 stig.

    ReplyDelete