Jáhá. Ég var að koma heim úr bíó. Við fórum á þrívíddar-pixar-meistaraverkið Up (2009), myndin er akkúrat núna í 32. sæti á Topp 250 lista imdb sem verður að teljast ansi gott. Það má þó reikna með því að myndin muni lækka töluvert á næstu vikum, enda mjög ný og alls ekki margir búnir að gefa henni einkunn.
Myndin fjallar um hinn aldraða Carl Fredricksen sem hefur alla tíð dreymt um að ferðast með eiginkonu sinni, Ellie til Suður-Ameríku. Tíminn líður og ekkert gerist í þeim málum, Carl starfar sem blöðrusali og hún vinnur í dýragarði. Að lokum fellur Ellie frá. Árin líða og einbúinn Carl er neyddur til þess að flytja út úr húsinu sínu, húsinu sem hann hafði búið í alla sína ævi. Hann lætur ekki bugast og tekur upp á því að binda þúsundir blaðra við húsið sitt og flýgur á því til Suður-Ameríku. Með í för er þó lítill laumufarþegi, nefnilega "Junior"-skátinn Russell sem á sér þann draum heitastan að verða "Senior"-skáti en til þess þarf hann eina medalíu í viðbót, medalíu sem ævintýraferð til Suður-Ameríku gæti örugglega tryggt honum.
Ég, eins og flestir, fór inn í bíóið með miklar væntingar. Ég var að fara að sjá mynd sem hafði fengið ótrúlega góðar viðtökur, hún kom frá Pixar (sem virðast ekki kunna að búa til lélegar kvikmyndir) og hún var í ÞRÍVÍDD! Hversu epísk yrði þessi mynd? Ég þurfti ekki að bíða lengi þar til þeirri spurningu yrði svarað. Ég hreifst strax af fyrsta atriði myndarinnar, forsögunni af tveimur krökkum í ævintýraleit sem kynnast, verða vinir, gifta sig og setjast að í litlu húsi sem hafði verið draumahús litlu stúlkunnar. Hún hafði alltaf látið sig dreyma um að flytja húsið til Suður-Ameríku og Carl, maðurinn hennar sór að þau myndu gera það einhvern daginn. Tímarnir líða og konan fellur frá, öll sú sena var ótrúelga hjartnæm og sorgleg. Hún hafði svo sterkan boðskap, að draumarnir rætast ekki alltaf og að við verðum bara að sætta okkur við það sem við höfum. En væmnin entist ekki lengi. Um leið og Russell, litli feiti skátastrákurinn var kynntur til sögunnar byrjaði fjörið. Síðan bættist alltaf við ný og ný persóna sem var hver annarri skrautlegri. Fuglinn "Kevin" (sem reyndist síðan vera kvenkyns) er ótrúlega ofvirkur og skrýtinn fugl. Hundurinn "Dug" er sömuleiðis skrýtinn, hann kann að tala en er samt uppfullur af hunda-hvötum. Samspilið á milli þessarra fjögurra karaktera er vægast sagt skemmtilegt og sjúklega random. Og ég elska random.
Ég elskaði sérstaklega litlu random mómentin þegar hundarnir urðu skyndilega annars hugar og kölluðu "Squirrel!" og héldu svo áfram eins og ekkert hefði í skorist. Það var þannig móment sem orsakaði það að ég var fullkomlega ófær um samskipti góðan hluta af hléinu, vegna hláturs.
Myndin var ótrúlega fyndin og skemmtileg en líka ótrúlega falleg. Næst-síðasta og fyrsta atriði myndarinnar voru bæði ótrúlega hjartnæm. Í þeim skoðaði gamli maðurinn ævintýrabókina sem konan hans hafði átt þegar hún var lítil og minnist hennar. Hún snart alveg ótrúlega djúpt, á mjög fallegan hátt, á milli þess sem aulahúmorinn hélt salnum í hláturskasti.
Eins og við var að búast var myndin ótrúlega vel gerð, tæknilega. Pixar-menn eru engir aukvisar (ég veit ekkert hvernig þetta orð er skrifað) þegar kemur að teiknimyndum, enda hafa þeir 14 ára reynslu í faginu. Senur voru þaulskipulagðar (eins og alltaf í teiknimyndum) og grafíkin var bara svei mér þá svona raunveruleg! Karakterarnir voru ekki alveg mannlegir, útlitslega. Útlitsleg einkenni þeirra voru ýkt til þess að gefa þeim meiri karakter. Til að mynda var gamli maðurinn Carl gerður ótrúlega lítill og kassalaga, á meðan vondi kallinn, Charles Muntz var teiknaður oddhvass og grannur. Litli feiti skátinn Russell var svakalega lítill og svakalega feitur, sem gaf hans karakter mikla kómík.
Það skemmtilega við mynd eins og Up er hvað hún nær yfir breiðan áhorfs-hóp. Myndin virðist við fyrstu sýn vera barnamynd, en hún er samt sem áður sýnd fyrir fullum sal í tíubíó og fullorðið fólk og unglingar veltast um af hlátri yfir ævintýrum gamla mannsins og feita stráksins.
Ég var altént (aftur, hef ekki hugmynd um hvernig þetta er skrifað) mjög ánægður með myndina. Hún skildi eftir sig djúpstæðan boðskap sem ég kýs að túlka einhvernveginn svona: "Í staðinn fyrir að eltast við draumana ætti maður að lifa lífinu, því lífið sjálft er mesta ævintýrið"
...ókei ég á eftir að fínpússa þetta aðeins en svona líður mér allavegana eftir að hafa horft á myndina :)
Ef ég má koma með einn slæman punkt, þá skil ég ekki alveg afhverju myndin endaði á því að Carl varð einhverskonar föðurímynd Russels. Mér skildist að Russell ætti föður... en hvar var hann? Mér hefði fundist þessi endir ótrúlega fallegur ef Russell hefði t.d. verið munaðarlaus... ég meina kommon, hann átti alveg pabba og eitthvað! Hallóó...
Up, uppáhalds teiknimyndin mín hingað til. Hún var sjúklega fyndin, stundum sjúklega sorgleg, hún var falleg og vel gerð og innihélt skemmtilegan boðskap.
Tuesday, September 1, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
nú langar mig ennþá meira að sjá þessa mynd..
ReplyDeleteFlott færsla og ég er í alla staði sammála þér. Frábær mynd!
ReplyDeleteVarðandi pabba Russells þá skildi ég það þannig að Russell væri skilnaðarbarn ("You call your mother Rose?" - "Rose isn't my mother!") og að pabbi hans hefði svo lítinn tíma fyrir hann eftir skilnaðinn að hann hittir hann varla (þess vegna vildi hann verða Senior Wilderness Scout, því þá komu pabbarnir á athöfnina).
7 stig.
Já hvað var málið með pabba hans? Og hvar var mamma hans? Það var ekkert talað um hana. Bara Phyllis. Er það kærasta pabbans eða hvað? Einn stór laus endi þarna. En annars stórkostleg mynd í alla staði. Komin í #33 sæti á imdb!
ReplyDelete