Sunday, November 15, 2009
Klisjukenndasta skítadrasl kvikmyndasögunnar
2012(2009)
Við félagarnir skelltum okkur á stórmyndina 2012 nú í kvöld. Ætlunin var að fara kl. 22 en vegna gífurlegrar aðsóknar var uppselt á þá sýninguna. Við dóum ekki ráðalausir heldur ákváðum að fara á myndina kl. 23.15 í staðinn. Athugið að sú ákvörðun var tekin ÁÐUR en við áttuðum okkur á því að myndin er rúmlega tveir og hálfur klukkutími.
Myndin fjallar um heimsendi. Jibbíjei, enn ein stórslysamyndin.. Eins og titilinn gefur til kynna gerist hún árið 2012, en þá á heimurinn víst að enda samkvæmt tímatali Maya... Útskýringin á heimsendinum er, að sjálfsögðu, ekki mjög vísindaleg. Það er eitthvað talað um það að geislar frá sólinni séu orðnir of heitir vegna aukningu sólgosa og að þeir séu farnir að virka eins og örbylgjur. Jörðin okkar er semsagt í risastórum örbylgjuofni og flekarnir munu brátt byrja að færast til undir bráðnuðu undirlagi sínu. Nú er ég ekki mjög góður í jarðfræði, en eitthvað segir mér að þessi útskýring á heimsendi sé ein sú mesta þvæla sem skrifuð hefur verið í handrit... En ég ætla alfarið að leyfa jarðfræðingunum að hrekja það.
Svo ég tali nú aðeins meira um söguþráðinn, þá fylgjum við líka sögu fráskilins tveggja barna föðurs sem fer með börnin sín, litla krúttlega stúlkukind og ótrúlega mikinn rebel-strák (uþb. 10 ára) sem þolir ekki pabba sinn og er alltaf í geimbojinum sínum, í útilegu í Yellowstone-þjóðgarðinn rétt í þann mund sem hann breytist í risastórt eldfjall. Fjöslkyldufaðirinn dyggi kemst að því að verið sé að byggja svokölluð skip ("the government is building these ships") sem eiga að bjarga öllu. Ferðalagi fjölskyldunnar er síðan fylgt í bland við klisjukenndar senur af Bandaríkjaforseta og hans sérfræðingum.
Réttur titill myndarinnar væri í raun "The Cliché Movie" einfaldlega vegna þess að hún er klisjukenndasta og amerískasta mynd sem ég hef séð á ævinni. Það er í raun engin virkilega þekkt klisja sem kom ekki fyrir í myndinni og vil ég hrósa leikstjóra myndarinnar, Roland Emmerich, fyrir að hafa náð að troða þeim öllum inn í myndina. Sem dæmi um klisjur má nefna:
- Einhleypa gaurinn sem var lélegur pabbi en vinnur aftur traust barna sinna og ást fyrrverandi eiginkonu sinnar með því að vera geðveik hetja.
- Forseta Bandaríkjanna sem hafnar því að fara með skipi til að halda lífi, en ákveður að vera eftir í Hvíta Húsinu og deyr þar.
- Unga jarðfræðinginn sem hefur á réttu að standa allan tímann.
- Hin ótal bíla- og flugvélaatriði þar sem allir virðast verða fyrir hrauni/hrynjandi húsi NEMA aðalpersónurnar okkar.
- Vonda rússneska kallinn sem er alveg sama um restina af fólkinu og vill bara halda lífi, sem deyr síðan að sjálfsögðu í lokin.
...og svona gæti ég haldið áfram í alla nótt.. En ég þarf að mæta í kvikmyndafræði kl. 08:10 svo ég ætla að drífa þetta blogg af.
Myndin var auðvitað frábærlega gerð, tæknilega. Öll sjónræn og hljóðræn atriði voru "tipp-topp", fyrir utan nokkra grafík-lega hnökra, sem eru að sjálfsöðgu óhjákvæmilegir í mynd sem er svo uppfull af tölvugrafík. Sérstaklega fannst okkur skemmtilegt hvað gæðin á myndinni voru góð, þetta var augljóslega ekki filma.. Kannski digital? Þetta var í sal 1 í Smárabíó.. Spalli, þú kannski veist hvernig tækni er notuð þar?
Handrit myndarinnar þarf ég ekkert að ræða frekar.. Það var ömurlegt. Ég gat ekki hamið mig um að deyja úr kjánahrolli á ákveðnum stöðum í myndinni ("I love you dad" kemur strax upp í hugann) og það má í raun segja að handritshöfundar myndarinnar hafi ekki tekið mikla sénsa þegar kom að því að skrifa...
Eina jákvæða atriðið um myndina sem mér dettur í hug þessa stundina (fyrir utan afþreyinguna og spennuatriðin) er fjöldi svertingja í stórum hlutverkum. En forseti Bandaríkjanna og hinn ungi jarðfræðingur voru báðir svartir. Það þótti mér stórmerkilegt og stórskemmtilegt. Myndin endaði síðan á krúttlegu ástarsambandi á milli hins síðarnefnda og dóttur forsetans, smá svona svertingja-ást... Maður hatar það ekki ;)
En annars, ef þú vilt fá afþreyingu og spennandi spennuatriði, innanum klisjukenndustu atriði veraldarsögunnar, skelltu þér þá á 2012! Endilega taktu vini þína með þér og passaðu að það séu engir í salnum sem taka myndinni alvarlega.. Hlátrasköllin þín munu alveg eyðileggja fyrir þeim upplifunina :)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Gummi, þú ert svo neikvæður. Ég fór á þessa mynd með þér með ákveðið hugarfar að þessi mynd yrði mesta klisja aldarinnar, ég vissi nákvæmlega hvað ég var að fara að sjá og það gerði myndina svo mikla snilld. Ég var eiginlega bara svekktur að það vantaði eina klisju í myndina, klisjan þegar hetjan sem bjargaði öllu labbar í slow motion með ógeðslega nett augnaráð og jafnvel sprengingar á bakvið sig.
ReplyDeleteIndependence day, Day after tomorrow, War of the Worlds í einni mynd, bara gert betur, með sjúklega nettum rússa í einu ágætlega stóru hlutverki, Arnold Schwarsnegger í sjónvarpinu í einu atriði og sjúklega góðum tæknibrellum, hvað þarf maður meira í eina mynd? Oki skal gefa þér að það mætti vera betra handrit, en það er ekki markmiðið að vinna Óskarinn fyrir besta handritið.
Meiri þvæla en The Core?
ReplyDeleteBjuggust þið virkilega við því að hún yrði minna en 2½ tími? Mér finnst eins og allar "stórmyndir" síðustu árin séu a.m.k. 140mín. Sem er skrýtið, því þá er ekki hægt að raða jafn þétt í öll 10þús bíóhúsin sem þær eru frumsýndar í fyrstu helgina...
En var það þannig að enginn trúir neinu sem ungi jarðfræðingurinn segir? Því það er auðvitað elsta klisjan í bókinni, notuð fyrst af Hómer þegar Cassandra sagði fyrir um allt hið hræðilega sem átti eftir að koma fyrir Trójubúa, en enginn trúði henni.
Skemmtileg færsla. Læt hugsanlega myndina eiga sig. 8 stig.
Nei, það var reyndar bara þannig í fyrstu og ríki ráðamaðurinn hló að honum í fínu veislunni sem jarðfræðingurinn þurfti að ryðjast inn í... En svo reyndar var honum trúað mjög fljótlega... En samt :)
ReplyDelete