Í dag ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi: Að vera góður stóri bróðir og sinna kvikmyndafræði-skyldum mínum. Ég horfði í bíómynd með litlu systur minni, Lindu (6 ára).
Myndin sem varð fyrir valinu var Coraline, fyrsta barnahryllingsmyndin sem ég hef séð. Hún var ótrúlega skrítin. Það var svolítið eins og gerendur myndarinnar hafi reynt að höfða til tveggja markhópa í einu. Annarsvegar Tim Burton aðdáenda og fólks sem fílar animated Halloweenmyndir og hinsvegar barna. Mér fannst það frekar undarlegt þar sem að myndin var eiginlega örlítið of scary fyrir litlu systur mína. Hún var mjög hræðileg á köflum, en algjör barnamynd á öðrum tímum...
Þrátt fyrir þennan leiðinlega árekstur barna- og fullorðinsmynda var myndin ágætis skemmtun. Helsta skemmtunin fólst í útliti hennar, sem var algjör snilld. Myndin er einhverskonar millibilsástand á milli þess að vera leirmynd og animated mynd. Hún er í algjörum Tim Burton stíl, enda leikstýrt af Henry Selick, leikstjóra The Nightmare Before Christmas, og var Coraline augljóslega svolítið markaðssett með velgengni þeirrar myndar í huga. Á coverinu stendur t.a.m. From the director of 'The Nightmare Before Christmas'...
Myndin fjallar um litla stúlku sem flytur í hús sem virðist vera í skógi eða einhversstaðar þar sem ekki er að finna mörg hús í kring. Þrátt fyrir það er húsið fjölbýlishús og það er búið í kjallara hússins og á háalofti þess. Coraline kynnist strák sem heitir Wybie og býr í hverfinu. Hann gefur henni dúkku sem lítur út alveg eins og Coraline og í kjölfarið finnur hún litla falda hurð á bakvið veggfóður í húsinu sínu. Við nánari athugun virðist hurðin leiða aftur inn í húsið hennar, nema í þetta skiptið er heimurinn miklu skemmtilegri. Fjölskyldan er ekki leiðinleg og garðurinn blómstrar! En Coraline mun fljótt komast að því að ekki er allt sem sýnist... Og eins og tagline-ið fyrir myndina segir til um: "Be cereful what you wish for" ("Varaðu þig á því hvers þú óskar þér).
Atburðarrásin og plottið í myndinni er svosem ágætt. Ekkert meira en bara svona meðal barnamynda-plott. Boðskapurinn er sennilega sá að maður á að sætta sig við það sem maður hefur, fallegur boðskapur sem öll börn ættu að þekkja.
Tæknileg vinnsla myndarinnar var afbragðsgóð. Grafíkin var sjúklega skemmtileg og þá sérstaklega í byrjunaratriðinu þar sem við sjáum Coraline-dúkkuna saumaða. Það kemur mér sífellt á óvart hvað animation-tækninni hefur fleytt fram á síðustu árum, ég veit hreinlega ekki hvar þetta endar! Gott dæmi um þetta er trailerinn að A Christmas Carol sem ég sá í bíó um daginn. Hendum honum bara inn hér: (ég mæli með HD)
En það allra helsta sem ég hef út á Coraline að setja er íslenska talsetningin. Ég er ekki mikið fyrir það að kvarta undan íslenskri talsetningu og er oftast mjög umburðarlyndur þegar kemur að henni, enda hef ég fengist örlítið við talsetningu sjálfur. En í Coraline var mér alveg gjörsamlega nóg boðið. Ég neyddist því miður til þess að horfa á myndina með íslensku tali og það hreinlega eyðilagði myndina fyrir mér. Það var allt of augljóst að við talsetningu myndarinnar hafði ekki verið vandað nóg til verka og finnst mér það algjör synd. Krakkarnir tveir sem döbba fyrir Coraline og Wybie eru gjörsamlega úti á þekju og þá sérstaklega drengurinn. Það virðist allt of oft vera í íslenskri talsetningu að vanvirðing gagnvart börnum lýsi sér í óvönduðum vinnubrögðum. Fólki virðist vera sama um það að vanda sig þegar myndin á að vera fyrir börn, vegna þess að þau eru minna líkleg til þess að taka eftir illa unnu verki. Algjör synd... Atvinnudöbbararnir eru nokkurn veginn pottþéttir en talsetningarfyrirtækið hefði átt að taka sér miiiiklu lengri tíma í að hjálpa hinum yngri og óreyndari talsetjurum..
Á heildina litið hefði ég viljað horfa á myndina á ensku. Allt sjónrænt var sjúklega flott og það eina sem skemmdi var, eins og fyrr sagði, íslenska talsetningin. Tvær og hálf stjarna af fimm. Hér má sjá trailerinn að myndinni:
Saturday, October 31, 2009
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Flott færsla. 8 stig.
ReplyDeleteMig langar soldið að sjá þessa. Hef heyrt að það séu mjög skemmtilegar pælingar varðandi dýpt og annað þess háttar.
Varðandi Christmas Carol verð ég að játa að mér finnst hún alls ekki líta vel út - raunar finnst mér hún bara ljót. Ég held að þetta sé mynd sem á eftir að eldast hrikalega illa, og á eftir að virðast ömurlega frumstæð eftir svona 5 ár. Hreyfingar persóna og annað þess háttar eru bara "off"...