
Ég var ótrúlega spenntur að sjá þessa mynd. Hún fær einkunnina 9,5 á imdb og einn notandi síðunnar lýsir henni sem "áhrifamestu heimildarmynd sem hann hafi séð". Lýsingin segir að hún fjalli um blindan sex ára strák sem keyrir bíl, leysir sakamál og tekur upp umhverfishljóð. Ég hélt að myndin fjallaði um einhvern ofur-strák sem nýtti sér hljóð og bergmál í umhverfinu til þess að skynja umhverfið (Echolocation) og gæti þannig keyrt bíl og ýmislegt annað. Eins og Daniel Kish, Ben Underwood eða aðrir blindir ofurhugar sem hjóla á hjólum eða fara í fjallgöngur.
Ég hafði rangt fyrir mér.
Í byrjun myndarinnar komumst við að því að Antoine Hoang er vissulega blindur.. En hann er ekki neitt klárari eða gáfaðari en nokkur annar krakki. Hann kann ekki að keyra bíl (þó svo að hann setjist nokkrum sinnum undir stýri og þykist keyra) og hann er eiginlega alla myndina að leika sér í rannsóknarlögergluleik með tveimur vinkonum sínum! Myndin er látin líta út eins og hún sé séð frá sjónarhóli sex ára barns. Myndavélin er í augnlínu við börnin og hristist óþægilega mikið. Næringarskortur minn og léleg myndataka orsökuðu það að ég þurfti að ganga út úr salnum þegar nokkrar mínútur voru eftir af myndinni vegna þess að mér var orðið svo flökurt. Það getur ekki talist jákvætt.
Það sem mér fannst stórvanta í myndina var einhverskonar heimildun. Einhver viðtöl eða einhver sögumaður. Myndin var Cinéma vérité og mér fannst þessar senur með stráknum ekki ná að halda myndinni uppi. Í lokin á myndinni, undir kreditlistanum, var leikstjórinn búinn að troða inn viðtölum við Antoine og vini hans. Og það verður að segjast eins og er að það var LANGskemmtilegasti hlutinn við myndina! Mér finnst hreint út sagt ótrúlegt að þessi viðtöl hafi þurft að mæta afgangi og þau hafi verið sett í kredit-listann!
Umfjöllunarefnið er stórskemmtilegt en úrvinnslan ömurleg.

Red Race (2009)
The Red Race er nokkurskonar ádeila á fimleikaheiminn í Kína með sérstöku tilliti til yngsta fimleikafólksins. Í myndinni er skyggnst inn í heim ca. 5-7 ára barna sem eru að stíga sín fyrstu skref í fimleika-skólum. Þeim er þrælkað út og þau beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi til þess að bæta sig. Mörg þeirra koma frá fátækum heimilum og vilja bæta sig í fimleikum til þess að geta unnið gullverðlaun á Ólympíuleikunum og þannig stutt fjárhagslega við fjölskyldurnar sínar.
Í þessari mynd, líkt og í Antoine, fannst mér stórvanta viðtöl eða sögumann. Myndin er í sama frásagnarlausa stíl og Antoine (Cinéma Vérité) og þrátt fyrir sláandi myndefni á köflum, fannst mér stíllinn gera myndina ótrúlega innihaldslausa. Myndin er jú bara 70 mínútur af krökkum í fimleikum að gráta og eftir smá stund varð það svolítið þreytt... Ef ég hefði fengið að gera myndina hefði ég tekið viðtöl við þjálfarana, krakkana og foreldrana. Ég hefði fundið staðreyndir um fimleikaheiminn í Kína og tvinnað þær inn í myndina.
Allt í allt, frekar sláandi, en ekki nægilega fjölbreytt til þess að halda í mann allan tímann.

Eamon (2009)
Eamon fjallar um litla fjölskyldu: Eamon, lítinn ofvirkan og athyglissjúkan strák sem sefur uppí hjá mömmu sinni, Grace, sem vill frekar hafa son sinn uppí hjá sér en að þurfa að sofa hjá Daniel, manninum sínum sem er orðinn virkilega kynferðislega bældur. Fyrri hluta myndarinnar er samúð áhorfandans öll hjá foreldrum Eamons, en síðan þróast hún þannig að í lokin er samúðin komin yfir til Eamons, stráksins sem á svona ótrúlega óþroskaða og ömurlega foreldra.
Svona eftir á að hyggja er Eamon ein af betri myndum sem ég sá á RIFF. Hún er mjög vel leikin og vel gerð á flestan hátt. Vilji persónanna er ótrúlega skýr og söguþráðurinn er tiltölulega einfaldur. Þróun persónanna og algjör víxlun samúðar er sérstaklega skemmtileg og eftirtektarverð, sem og leikræn tilþrif stráksins sem leikur Eamon. Hann fór meiraðsegja einusinni að gráta!
Sumsé, góð mynd, falleg og allt það :)
Ég sá einhverjar fleiri myndir (Francesca og Shorts program 2 meðal annars) en ég man svo lítið efti þeim myndum að ég held að það sé bara tilganglaust að blogga um þær. Ég horfi á það mikið af bíómyndum dags daglega að ég ætti alveg að geta lifað það af.
Friður.
Fín færsla. 7 stig.
ReplyDelete