Wednesday, September 2, 2009

Crank (2006) og Crank: High Voltage (2009)


Um daginn ákváðum við félagarnir að gerast flippaðir og taka smá mini-maraþon. Við leigðum Crank (2006) og Crank: High Voltage (2009). Við höfðum séð hvoruga þeirra, en heyrt að þær væru báðar stútfullar af spennu frá upphafi til enda: Þetta yrði hið fullkomna karlmennsku-maraþon!

Ég ætla ekki að hafa fyrir því að skrifa tvær mismunandi umsagnir um myndirnar. Seinni myndin er fullkomið framhald af fyrri myndinni og því eru myndirnar eins og ein löng spennumynd. Myndirnar voru eiginlega nákvæmlega eins, fyrir utan nokkur smáatriði... Nánar um það seinna.

Crank tvílógían fjallar um leigumorðingjann Chev Chelios sem leikinn er af ofur-töffaranum með breska hreiminn, Jason Statham. Ævintýri hans hefst í fyrsta atriði fyrstu myndarinnar þegar hann áttar sig á því að vondir kínverja-kallar hafa sprautað hann með eitri sem mun draga hann til dauða innan klukkustundar. Eina leiðin til þess að halda sér á lífi er að gefa líkamanum adrenalín... Fyrri Crank myndin snýst því um örvæntingarfullar tilraunir Chevs til þess að næla sér í adrenalín. Seinni myndin fjallar um sama mann, í sömu aðstæðum... nema í staðinn fyrir adrenalín þarf hann RAFMAGN til þess að lifa! Já, ég sagði það. Rafmagn. Hjarta Chevs hefur nefnilega verið skipt út fyrir rafknúið gervihjarta sem hefur ótrúlega lélegan endingartíma á batteríinu. Til þess að lifa af þarf Chev því stanslaust að gefa sjálfum sér raflost úr hinum og þessum rafmagnskassanum... Talandi um þunnan söguþráð...

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja á því að skíta yfir þessar myndir. Í fyrsta lagi var öll tæknileg vinna fáránleg. Hún var stundum mjög tilraunakennd (sem verður þó að teljast nokkuð jákvætt) en allt í allt var hún ruglandi, pirrandi og léleg. Klippingarnar voru ALLT OF hraðar, í mestu spennuatriðunum var svolítið erfitt að fylgjast með. Stundum var líka myndinni hraðað ótrúlega mikið, til þess að tákna orkuna sem hetjan okkar fékk úr adrenalíninu/rafmagninu og oftar en ekki var það bara fáránlegt. Tæknin var líka á köflum beinlínis léleg. Bluescreen-tækni myndarinnar var hræðileg og fullkomlega ósannfærandi. Stundum var líka mynd af leikara sem var offscreen (t.d. að tala við on-screen manneskjuna í gegn um síma) komið fyrir einhversstaðar í umhverfinu... Það er svolítið erfitt að útskýra þessa tilraunastarfsemi... Mér fannst hún fáránleg.

Margir hafa bent á tilvísanir í tölvuleiki í myndunum. Byrjunar-creditin eru svolítið eins og maður sé að starta tölvuleik frá níunda áratugnum og í myndinni má sjá þónokkrar tilvísanir í tölvuleiki. Að mörgu leiti eru myndirnar svolítið eins og tölvuleikur. Spennan hættir aldrei, það koma sífellt upp ný vandamál og spennuatriði og báðar myndirnar enda á svakalegum bardagasenum við aðal-vondakallinn (endakallinn í tölvuleikjunum!) Auk þess má nefna þá staðreynd að Chev Chelios virðist vera fullkomelga ódauðlegur, líkt og margar persónur í skotleikjum nútímans.

Fáránlegasta tæknilega atriði myndarinnar fannst mér þó notkunin á Google Earth. Á mörgum stöðum í myndinni eru kort notuð til þess að sýna hvar persónurnar eru staddar. Í öllum þeim senum var Google Earth notað sem korta-kerfi og augljósasta product placement allra tíma framkvæmt: Google Eart LOGO-IÐ sást í horninu á skjánum í hvert skipti sem við sáum kort! Fjandinn hafi það, gátu þeir ekki bara búið til nokkur kort fyrir myndina? Þurftu þeir í alvörunni að leggjast svo lágt að nota hugbúnað sem hver einasta tölva í heiminum hefur að geyma? Mikið ofboðslega fór það í taugarnar á mér.

Allt í allt var Crank-tvílógían léleg tilraun til þess að gera spennumynd, eða ágæt tilraun til þess að gera spoof-spennumynd. Ég veit ekki alveg hvort... Það eina sem ég veit er að ég hló ekki og mér var ekki skemmt. Ef myndirnar voru gerðar í gríni hefði ég kannski getað horft á þær frá öðru sjónarhorni... En þær voru samt, og verða alltaf, ógeðslega fokking lélegar myndir!

...og hvað var eiginlega málið með þessa senu?

1 comment:

  1. Fín færsla.

    Sjálfur hef ég ekki séð þessar myndir, og er ekkert allt of áfjáður í að sjá þær.

    Hins vegar finnst mér áhugaverðar pælingar í hasarsenum, sérstaklega samanburður á mismunandi stílum. David Bordwell skrifaði mjög góða grein um þetta ("A Glance at Blows"). Hans skoðun er sú að hasarsenur af því tagi sem þú lýsir hér, þ.e. svo hröð klipping að maður áttar sig varla á því hvað er að gerast, séu til marks um óöryggi, vankunnáttu eða heigulskap. Menn sem að virkilega kunna að kóreografera og búa til hasarsenur sýna áhorfendum hvað er að gerast. Hann tekur sem dæmi muninn á Transporter 1 og Transporter 3. Transporter 1 er leikstýrð af Hong Kong leikstjóranum Yuen Kwai sem hefur áratuga-reynslu af hasarsenum, á meðan Transporter 3 er leikstýrð af Olivier Megaton (sem hefur ekki gert neitt sem ég kannast við). Þrátt fyrir að Yuen Kwai kóreograferi hasarsenurnar í nr. 3, þá eru þær allt öðruvísi: þær einkennast einmitt af þessum hröðu klippum og myndavélahreyfingum sem segja áhorfandanum "Nú er ógeðslega mikið að gerast og þú átt að vera geðveikt spenntur", en sýna honum eiginlega ekkert hvað er að gerast.

    Sjálfur hef ég ekki séð Transporter myndirnar (langar samt pínu til þess eftir að hafa lesið grein Bordwells). Það væri áhugavert ef þið félagarnir tækjuð Transporter maraþon næst, og mynduð svo bera saman hasarsenurnar í myndunum þremur (ég held að Yuen Kwai hafi líka leikstýrt nr. 2).

    6 stig.

    ReplyDelete