Thursday, September 17, 2009

RIFF - dagur 1

Jæja, þá er klukkan orðin 8 að kveldi fyrsta dags Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Hátíðin hófst semsagt í dag, en formleg opnun hennar er í gangi AKKÚRAT NÚNA! Flippað. Þrátt fyrir skamman líftíma er ég nú þegar búinn að sjá 2 myndir á hátíðinni og er semsagt búinn að uppfylla skyldur Sigga Palla. Ég stefni þó að því að nýta mér 8.000 kr. passann töluvert betur og er búinn að merkja við einar 15 sýningar í viðbót! Sjáum til hvernig það á eftir að ganga...

Myndirnar sem ég sá áðan eru belgíska vísindakómedían Dirty Mind og sænska sundkómedían Swimsuit Issue. Þessar myndir eiga það sameiginlegt að fjalla um tilvistarkreppu evrópskra karlmanna, á ansi ólíkan hátt þó. Byrjum á byrjuninni.

Hin belgíska Dirty Mind (2009) fjallar um stórskrítna þróun á samskiptum bræðra. Annar þeirra, Cisse, er ofur-kúl og starfar sem áhættuleikari en hinn, Diego, er algjör aumingi og starfar sem aðstoðarmaður bróður síns. Þeir reka saman áhættu-fyrirtæki þar sem einu starfsmennirnir virðast vera þeir sjálfir. Það gerist síðan einn daginn að Cisse slasast og því kemur það í hlut Diego að framkvæma áhættuatriði, það klúðrast hrapalega og söguhetjan okkar lendir á spítala. Þegar hann rankar við sér virðist hann hafa skipt um persónuleika. Hann er orðinn þvílíkur töffari og kvennabósi sem byrjar að reyna við fyrstu konuna sem hann sér, hjúkkuna á spítalanum. Hún er þó engin venjuleg hjúkka heldur heitir hún Jaana og sérhæfir sig í Frontal Syndrome, sjúkdómi sem lýsir sér þannig að sjúklingurinn breytir um persónuleika eftir högg á höfuðið. Hún heldur því fram að Diego, sem kallir sig núna Tony T., þjáist af Frontal Syndrome og fær leyfi til þess að rannsaka skapferli hans og líðan.

Myndin fannst mér ágæt, hún var ekki frábær og alls ekki léleg... en hún var samt einhvernvegin bara ágæt. Hún skildi ekki mikið eftir sig í mínu tilfelli, en var ágætis afþreying og sprenghlægileg á köflum. Hvað varðar leik í myndinni sá ég enga stóra vankanta. Aðalleikarinn, Wim Helsen, sem lék Diego stóð sig ótrúlega vel í því að túlka tvo gjörólíka persónuleika. Mér fannst reyndar að útlitshönnuðir myndarinnar hefðu getað gert hann meira töff þegar hann var orðinn að Tony T., en ekki einhverjum plebba í íþróttagalla, en það var sko ekki Wim Helsen að kenna. Hann lék sína rullu af stakri snilld og má vera stoltur af sinni vinnu. Kristine Van Pellicom, sem lék lækninn Jaana stóð sig líka mjög vel. Hennar karakter var kona sem lagði of mikið í vinnuna sína og vildi innst inni bara fá sér kærasta. Robbie Cleiren, sem lék Cisse var líka góður. Svona eftirá að hyggja fannst mér líka Peter Van den Begin, sem lék samstarfslækni Jöönu algjör snilld! Hann var graður læknaplebbi sem var ótrúlega afbrýðisamur útí Tony og ótrúlega hrifinn af Jöönu. Hann þráði ekkert heitar en að eyða tíma með Jöönunni sinni og það var alltaf eyðilagt af Tony T., folanum sem heillaði hana upp úr skónum.

Tæknileg vinna myndarinnar var ansi góð. Það var (augljóslega) mikið af áhættuatriðum í myndinni og voru þau öll útfærð vel. Myndatakan og klippingin voru voða lítið ruglandi, fyrir utan eitt og eitt handheld-skotið sem fóru svolítið í taugarnar á mér. Hljóðvinna og tónlist voru hnökralaus og búningar og gervi voru sannfærandi. Handritið var líka gott, karakteruppbygging bræðranna tveggja var stórskemmtileg og þróunin hreint út sagt yndisleg. Smám saman varð Cisse að Diego, og öfugt.

Allt í allt er ég sáttur með myndina. Ég skildi allt (held ég) og skemmti mér vel.

Seinni myndin sem ég fór á var sænska gamanmyndin Swimsuit Issue (2009). Myndin er í raun tragíkómísk sorgarsaga Fredriks, manns sem er sjálfselskari en allt og gerir hvað sem er til þess að vinna í einhverju. Hann hafði keppt með félögum sínum í bandý-meistaramótum á níunda áratugnum og enn þann dag í dag skipuleggur hann æfingar fyrir bandý-næstumþví-meistarana (sem lentu í 4. sæti á Svíþjóðarmótinu fyrir 20 árum). Fredrik er algjör "lúser" í lífinu. Hann á 17 ára dóttur með fyrrverandi eiginkonu sinni og er nýbúinn að missa vinnuna sína. Eina gleðin sem hann virðist fá út úr lífinu er að stunda bandý með vinum sínum, en skyndilega er þeim lö

Einn daginn er bandý-liðinu nefnilega hent út úr æfingarhúsnæðinu sínu til þess að stelpu-bandý-lið geti æft þar. Einhver skrítin þróun veldur því svo að Fredrik áttar sig á því að auðveld leið til þess að komast í íþróttalandslið er bara að finna íþrótt sem enginn Svíi keppir í. Niðurstaðan er listsund. Hann fær vini sína til þess að mynda með sér listsund-lið, þeir eru þá eina karla-listsund-liðið í Svíþjóð og þar af leiðandi Karlalandsliðið í Listsundi. Fredrik fær Söru, dóttur sína, sem svo skemmtilega vill til að æfir listsund, til þess að þjálfa liðið og hjólin byrja að snúast hratt.

Myndin minnti mig á margan hátt á íslenskar myndir eins og Íslenski draumurinn eða Maður eins og ég. Svona myndir um algjöra lúsera sem eru komnir út í fáránlegar leiðir til þess að ná fram markmiðum sínum í lífinu. Í umsögn á vefsíðunni Eye for Film ver myndinni líkt við The Full Monty, sem er ótrúlega góð líking sem ég hafði ekki áttað mig á. Báðar myndirnar fjalla um karlavinahóp sem er byrjar að gera hluti sem hentar þeim engan veginn, og þykja bara ansi góðir í faginu.










The Full Monty og The Swimsuit Issue... ALVEG EINS!

Leikararnir í myndinni voru langflestir algjör snilld. Þeir voru ótrúlega venjulegar týpur en samt voru karakterarnir útpældir og mjög vel útfærðir. Hver og einn þeirra á mikið lof skilið, þá sérstaklega sá sem lék Fredrik. Ég vorkenndi honum ótrúlega í öllum mistökunum sem hann gerði í lífinu og ótrúlegri þrjósku til þess að breyta sér. Hann var svo staðráðinn í því að vinna og að vera bestur að fólk missti oft virðinguna fyrir honum. Hann var besserwisser-týpan to the extreme... og ég vorkenndi honum sjúkt. Stelpan sem lék dótturina stóð sig líka vel. Hún túlkaði unglingsstúlku í tilvistarkreppu óelskandi foreldra prýðilega og maður gat fundið til með henni.

Tæknileg vinna. Jájá. Gott gott. Ég tók sérstaklega eftir ótrúlega flottum underwater-tökum, sem voru algjört möst í sumum sund-senunum. Stundum fannst mér atburðarrásin klippt allt of hratt, ég veit ekki hvort það átti að vera einhverskonar stíll en sum móment og sumar gjörðir fengu ekki tíma til þess að lifa. Sem dæmi má nefna tilfinningaþrungið móment þegar Fredrik sagði feita liðsfélaganum sínum frá því að hann myndi ekki keppa á heimsmeistaramótinu og að feiti vinurinn ætti að synda í hans stað. "Charles, you'll take my place. I wont compete, because Sara is lost and I have to find her"... Fallegt móment sem fékk ENGAN tíma til þess að lifa. Um leið og Fredrik kláraði setninguna var klippt yfir í næstu senu! Og við fengum ekki einusinni að sjá viðbrögð hjá Charles! Úff, hvað það pirraði mig. Hraðar senuskiptingar geta verið algjör snilld (gott dæmi: Shaun of the Dead og Hot Fuzz) en sum móment VERÐA einfaldlega að fá að lifa og suma hluti vill áhorfandinn fá tíma til þess að sjá.

Annars mjög fín mynd og ótrúlega fyndin.


1 comment:

  1. Fín færsla.

    Greinilegt að maður verður að kíkja á Swimsuit Issue.
    Skemmtilegur punktur með klippinguna og augnablik sem þurfa tíma.

    Varðandi klæðaburðinn á Tony T þá fannst mér hann alls ekkert út úr kú. Tony T var aðallega töff því honum fannst hann vera töff, þ.a. hallærisleg föt sem kalla á athygli fannst mér einmitt vera málið.

    8 stig.

    ReplyDelete